Lokun Til Frambúðar
Okkur þykir miður að valda óþægindum. Þessi staður hefur verið lokaður til frambúðar. Takk fyrir stuðninginn og skilninginn.
Fjölskyldumiðstöð og innileikvöllur
Notalegur samverustaður fyrir fjölskyldur
Leikur, skemmtun, fræðsla og stuðningur
Fyrir börn að grunnskólaaldri og foreldra þeirra
Styður við þroska ungra barna
Leikumhverfi, hannað af fagfólki að þörfum yngstu barnanna
Previous slide
Next slide
Um hugmyndafræði

Innileikvöllur og fjölskyldumiðstöð

Velkomin í Fjölskylduland! Við erum heildrænn og skemmtilegur innileikvöllur með fjölskyldumiðstöð. Við leggjum áherslu á að skapa fallegt, öruggt og örvandi umhverfi fyrir börn að grunnskólaaldri. 

Leiksvæðin okkar hvetja börn til skapandi leiks og rannsókna og Fjölskylduland er staður samveru fyrir fjölskyldur. Fjölskylduland er einnig styðjandi umhverfi fyrir foreldra, verðandi foreldra og aðra umönnunaraðila og fjölskyldumeðlimi.

Við bjóðum upp á ýmis námskeið þemadaga og opna tíma í stundatöflu. Samstarfsaðilar Fjöskyldulands bjóða upp á ýmsa spennandi þjónustu í húsinu sem ætluð er börnum og foreldrum.

Fjölskylduland er samverustaður sem svo margar fjölskyldur hafa beðið eftir.

Vel hannaður innanhús leikvöllur, skipaður hæfileikaríku og faglegu starfsfólki

Fjölskylduland er vel hannaður innileikvöllur sem býður upp á fjölbreytt tækifæri til skynörvunarleikja fyrir ung börn. Leiksvæðið er hannað af natni með opnum náttúrulegum efnivið og leikefni valið af fjölbreyttum hópi fagfólks. Á leiksvæðinu fá börn tækifæri til að kanna umhverfi sitt og sjálfstæði með umönnunaraðila sem örugga höfn. Starfsfólk hefur umsjón með leiksvæði og leiðbeina gestum en börn eru ávallt á ábyrgð foreldra eða umönnunaraðila.

Samverustaður og fræðslumiðstöð foreldra

Fjölskylduland er staður sem foreldrar hafa beðið eftir. Það getur verið krefjandi að annast ung börn og umönnunaraðilar finna oft og tíðum fyrir félagslegri einangrun. Fjölskylduland er staður þar sem fólk getur hist með börn sín, spjallað saman og slakað á meðan börnin vinna hörðum höndum; að læra í gegnum leikinn! Fjölskylduland býður upp á fjölbreytt, fræðandi og skemmtileg námskeið/opna tíma, fyrir foreldra og fjölskyldur. Markmiðið er að hvetja til leiks, draga úr streitu og efla umönnunaraðila í hlutverki sínu. En einnig að veita tækifæri til tengsla í víðum skilningi milli fjölskyldna og samfélaga þeirra.

Fjölskyldumiðstöð með fjölbreytta þjónustu

Fjölskylduland er í samstarfi við fjölbreyttan hóp fagfólks sem býður upp á meðferðir, fræðslu og/eða stuðning fyrir fjölskyldur. Þetta getur verið hvort sem er fyrir börn, foreldra eða fjölskylduna saman. Sem dæmi um þjónustu má nefna einstaklingsmeðferðir, brjóstagjafaráðgjöf, námskeið og viðburði. Ef þú hefur áhuga á að slást í hópinn þá er velkomið að sækja um aðgang að fjölnota rýmum Fjölskyldulands. Frekari upplýsingar má sjá á síðu “Samstarfsaðilar” sem finna má efst á heimasíðunni.

Hér geta börn fengið útrás fyrir orkuna og sköpunargleðina

Leikvellir höfða til barna á öllum aldri og í Reykjavík er fjöldinn allur af frábærum leikvöllum þar sem fjölskyldur geta notið sín með nægt rými, ferskt loft og greiðan aðgang að náttúrunni.

Eins mikilvægt og það er að njóta útiverunar þá er einnig mikilvægt að geta komið inn að leika. Við erum sannfærð um að með því að bjóða yngstu börnunum upp á fallegt og hlýtt leikumhverfi á dimmum og köldum dögum getum við bætt lífsgæði fjölskyldna til muna. Fjölskylduland er vandlega hannaður innileikvöllur sem býður upp á tækifæri til skynörvunarleikja fyrir börn og fjölbreytt tækifæri til leikja sem reyna bæði á fín-og grófhreyfingar.

Skynörvunarleikir, allt árið um kring

Um leið og boðið er upp á hlýlega leikaðstöðu er einnig hugað að fjölbreyttum leiðum til skynörvunar. Leitast er eftir því að koma til móts við mismunandi aldur barna og þarfir. Með því að bjóða upp á fjölbreytt umhverfi til skynörvunarleikja getum við stutt almennan þroska ungra barna

Rými til hreyfileikja, hvernig sem viðrar

Ung börn eru orkumikil og hafa mikla þörf fyrir hreyfingu. Mælt er með því að ung börn fá að lágmarki 60 mínútur af frjálsum grófhreyfileikjum á dag. Þessi nauðsynlega hreyfing er mikilvæg fyrir vöxt og þroska barna.

Leikur styrkir börn, bæði líkamlega og vitsmunalega

Rannsóknir á leik barna sýna að með því að gefa börnum góðan tíma í sjálfsprottinn leik má hafa mikil jákvæð áhrif á alhliða þroska þeirra. Í sjálfsprottnum leik takast börn á við krefjandi verkefni á eigin forsendum, láta reyna á samskipti með samtölum og samvinnu við aðra. Með því að leita lausna á eigin forsendum byggja börn einnig upp þrautseigju. Sjálfsprottinn leikur veitir börnum ekki aðeins mikla ánægju og lífsfyllingu heldur styrkir það líka vöðvana, beinin og heilann!

Örvandi umhverfi sem styður við þroska barna

Þroskandi leiksvæði snýst ekki um að fanga athygli barna með hávaða eða látum heldur ætti að vera hannað að gaumgæfni með aldur og þroska barna í huga. Markmiðið er ávallt að styðja við alhliða þroska þeirra án þess að örva viðkvæmt taugakerfi þeirra um of, til dæmis með því að velja náttúrulegan efnivið í umhverfi og leikföng eins og hægt er.

Um rýmið

Fjölskylduland er staðsett í Dugguvogi 4, í Vogabyggð. Stutt er í almenningssamgöngur. Fjölskylduland býður upp á leiksvæði með fjölbreyttum tækifærum fyrir börn, til þess að hugsa, rannsaka, skapa og gleyma sér í leik. Á leikvellinum er starfsfólk sem leiðbeinir foreldrum og börnum eftir þörfum. Börn eru ávallt á ábyrgð foreldra/forsjáraðila.

Innileikvöllur Fjölskyldulands er opinn og bjartur. Þar má finna ólík leiksvæði, til dæmis afmarkað svæði fyrir ungabörn með fjölbreyttum þroskaleikföngum, bækur og kubba, stóran trékofa, stíga fyrir jafnvægis- og hlaupahjól og svæði til skynörvunarleikja.
Til viðbótar við leiksvæðin eru tvö stór rými sem nýtast fyrir ýmis námskeið, tíma og smiðjur fyrir börn og foreldra. Einnig má finna nokkur minni herbergi/skrifstofur, setustofu og aðstöðu til að matast

Hittið Stofnandann

Krisztina G. Agueda er hreyfiþjálfi sem sérhæfir sig í hreyfiþroska ungra barna. Hún hefur rekið Hreyfiland – fjölskylduvæna líkamsrækt á höfuðborgarsvæðinu – í meira en tvo áratugi. Hreyfiland býður upp á þroskandi hreyfitíma fyrir ungabörn og börn frá 3ja mánaða til 6 ára aldurs, auk markvissrar meðferðar fyrir börn með þroskafrávik.

Krisztina hefur skapað dásamlegt samfélag í gegnum vinnu sína í Hreyfilandi sem stækkar óðum. Í gegnum árin hafa fleiri þúsund börn verið hjá henni á námskeiðum, fengið einstaklingsmeðferðir eða verið þátttakendur í íþróttaviðburðum.

Krisztinu hefur dreymt um að blása lífi í verkefni sem þetta í nokkur ár. Margt hefur orðið að veruleika í Hreyfilandi á hinum ýmsu stöðum undanfarin 20 ár. Þessi þjónusta og viðburðir hafa ekki verið í boði á sama tíma. Við höfum fulla trú á því að með vel hönnuðu svæði, í samvinnu við fjölbreyttan hóp fagfólks, getum við haft gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið okkar.

Samstarfsaðilar Fjölskyldulands